Tilboðsskilmálar
Eftirfarandi sölu- og afhendingarskilmálar Prentsmiðjunnar Odda (hér eftir nefnt félagið) gilda um sölu og afhendingu prentverks sem fyrirtækið tekur að sér fyrir kaupanda vöru nema sérstaklega hafi verið samið skriflega um annað. Skilmálar þessir, þar á meðal undanþágur frá ábyrgð, varnir, réttindi og ábyrgðartakmarkanir, skulu gilda í hverskyns málarekstri gegn félaginu.
1.1 Tilboðið er bindandi í 7 daga frá tilboðsdegi.
1.2 Samningur telst vera kominn á og er bindandi við pöntun eða samþykkt pöntunar eftir atvikum.
2.1 Verð er alltaf gefið upp án virðisaukaskatts. Á reikningi er virðisaukaskattur færður sér.
2.2 Í verði er ekki innifalið:
Aukavinna eða aukakostnaður, sem fellur til, ef í ljós kemur eftir gildistöku samnings, að frumgögn frá kaupanda eru ófullnægjandi eða gölluð.
Aukakostnaður, sem hlýst af óskum kaupanda um breytingar eða viðbætur eftir gildistöku samningsins.
Aukakostnaður, sem hlýst af seinkun eða öðrum orsökum, er rekja má til kaupandans.
Einkaréttargjald til Almanakssjóðs Háskóla Íslands vegna útgáfu dagbóka og eða dagatala.
3.1 Vara telst afhent þegar hún er komin á umsaminn afhendingarstað.
3.2 Félaginu er heimilt að afhenda vöru, þegar hún er tilbúin, jafnvel þótt það sé fyrr en kveðið er á um í samningi.
3.3 Félagið skal svo fljótt sem auðið er láta kaupanda vita ef dráttur verður á umsaminni afhendingu. Verði kaupandi fyrir tjóni vegna dráttar á afhendingu getur hann krafist afsláttar sem skal þó aldrei nema meira en 20% af verði vörunnar. Dragist afhending verulega getur kaupandi rift samningnum.
3.4 Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni vegna seinkunar á afhendingu vöru sem rekja má til neðangreindra orsaka:
• Ófullnægjandi frumgagna frá kaupanda.
• Breytinga á verkinu eftir að vinna er hafin við það.
• Gáleysis eða ásetnings kaupanda eða manna á hans vegum.
3.5 Verði dráttur á umsaminni afhendingu af hálfu félagsins ber það ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni eða ágóðatapi s.s. rekstrartapi kaupanda eða taps sem kaupandi veldur þriðja aðila.
4.1 Félaginu er skylt að afhenda fullt upplag og sjá um að það sé í samræmi við pantað upplag að svo miklu leyti sem unnt er. Þó verða bæði kaupandi og félagið að sætta sig við 10% frávik til eða frá, sé verkið prentað í fjórlit eða vinnsla þess á annan hátt flókin og upplagið minna en 10.000 eintök. Sé upplagið stærra, má frávikið ekki vera meira en 5%. Hvað varðar aðra prentgripi, er áskilinn réttur til hæfilegra frávika með tilliti til eðlis prentgripsins, gæða og vandasemi í framleiðslu.
4.2 Félagið getur reikningsfært á einingarverði það magn sem umfram er og á sama hátt getur kaupandi óskað lækkunar á reikningi fyrir það magn sem uppá vantar í umsamið upplag. Í einingaverði í þessum tilvikum skal felast prentun, bókbandsvinna, pappír og önnur efni sem þarf til framleiðslu.
4.3 Þurfi kaupandi ákveðið lágmarksupplag, skal taka það fram skriflega við pöntun. Ef félagið getur ekki afhent lágmarksupplag, er kaupanda í sjálfsvald sett, hvort félagið skuli prenta viðbótarupplag kaupanda að kostnaðarlausu eða hvort hann tekur við upplaginu og fær afslátt á verði
5.1 Verð miðast við staðgreiðslu nema um annað sé samið.
5.2 Ef samið er um greiðslufrest skal kaupandi greiða vöruna eigi síðar en 20 dögum eftir að reikningur er gerður.
5.3 Sé greiðsla ekki greidd á réttum tíma er félaginu heimilt að krefja kaupanda um dráttarvexti og kostnað sem kann að falla til vegna innheimtuþóknunar.
5.4 Til tryggingar greiðslu hefur félagið rétt til að leggja hald á allar þær eigur kaupanda, sem eru í vörslu þess. Ef félagið hyggst beita framangreindum haldsrétti skal það tilkynna kaupanda skriflega um slíkt. Í tilkynningunni skal gera almenna grein fyrir tilefni viðkomandi aðgerðar ásamt fjárhæð skuldarinnar eða samtölu ef um fleiri skuldir er að ræða. Komi til þess að kaupandi greiði ekki skuldina í kjölfar framangreindrar tilkynningar er félaginu heimilt að selja eignirnar á hvern þann hátt sem það telur að sé hagstæðast hverju sinni, á kostnað og áhættu kaupanda og án þess að tilkynna kaupanda það sérstaklega. Nægi afraksturinn af sölu eigna ekki til að gera upp skuldina, á félagið rétt á að fá mismuninn greiddan úr hendi kaupanda ásamt vöxum og kostnaði. Verði hins vegar afgangur af sölunni, eftir að búið er að gera upp skuldina ásamt vöxtum og kostnaði, skal hann greiddur kaupanda.
6.1 Félagið ber ekki ábyrgð á villum og göllum, sem kaupandi hefur ekki leiðrétt í próförk hvort sem um rafræna- eða pappírspróförk er að ræða.
6.2 Telji kaupandi vöru gallaða, verður hann að tilkynna það strax og ekki seinna en 10 dögum eftir afhendingu. Kaupanda ber jafnframt að sýna fram á galla vörunnar og fjölda gallaðra eintaka af heildar upplagi. Sé ekki tilkynnt um tjón samkvæmt framansögðu skal réttur kaupanda til þess að krefja félagið um bætur vegna gallans falla niður sökum tómlætis.
6.3 Sé tilkynnt um galla á vöru innan framgreinds frests er félagið skyldugt til og hefur rétt til bæta úr göllum, svo fremi það geti orðið innan hæfilegs tíma. Geti félagið ekki bætt úr göllum innan hæfilegs tíma getur kaupandi í þeim tilvikum krafist afsláttar á verði sem skal þó aldrei nema meira en 20% af verði.
6.4 Ef galli á vöru er þess eðlis, að varan verður ekki nýtt til þess, sem ætlað var, og úrbótum skv. grein 6.3 verði ekki komið við, getur kaupandi rift kaupunum.
6.5 Ef galli er á vöru ber félagið ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni eða ágóðatapi s.s. rekstrartapi kaupanda eða taps sem kaupandi veldur þriðja aðila.
7.1 Hamli óviðráðanlegar orsakir (force majeure) afhendingu er félagið ekki skyldugt til að standa við umsaminn afhendingartíma eða er bótaskylt þótt afhending dragist eða bregðist.
7.2 Það er í höndum kaupanda að sjá um að eftirmyndun, prentun og útgáfa alls efnis, sem kaupandi útvegar í prentgripinn, sé lögleg og leyfileg. Kaupandi ber þannig ábyrgð á því að öllum innlendum og erlendum lögum, reglum og hvers konar fyrirmælum yfirvalda um notkun á efninu sé fullnægt eftir því sem við á. Kaupanda er auk þess sem að framan greinir skylt að bæta og halda félaginu skaðlausu vegna allra krafna frá þriðja aðila vegna afleiðinga þess að kaupandi hefur ekki tryggt sér leyfi til notkunar efnisins eða notkun þess er að öðru leyti ekki í samræmi við lög og reglur.
8.1 Félaginu ber að skila kaupanda upprunalegu efni milliliðalaust. Óski kaupandi eftir því sérstaklega geymir félagið upprunalegt efni gegn geymslugjaldi.
8.2 Tillögur, skissur, teikningar, stýriforrit, umbrot, skeytingar, filmur, stansar, klisjur, myndamót, prentmót og prentplötur, sem félagið hefur unnið, eru eign þess og getur kaupandi ekki krafist þeirra, nema um annað sé samið sérstaklega.
8.3 Ef verkkaupi óskar eftir afriti af fullunnum prentgrip á tölvutæku sniði er félaginu heimilt að krefjast greiðslu fyrir.
8.4 Gögn, sem fjallað er um í grein 8.2, má einungis nota til vinnu fyrir kaupandann eða með hans samþykki. Félagið geymir þessi gögn að hámarki í eitt ár. Um geymslu á tölvutækum gögnum skal semja í upphafi verks.
9.1 Félagið hefur á eigin ábyrgð rétt til að láta undirverktaka vinna verkið í heild eða að hluta. Allir undirverktakar eiga rétt á að bera fyrir sig öll ákvæði skilmála þessara eftir því sem við á.
9.2 Félaginu ber skylda til að fara með erindi og verkefni kaupanda sem trúnaðarmál og hindra sem frekast er unnt, að óviðkomandi hnýsist í verkefnið fyrir og í vinnslu þess.
9.3 Félagið bætir ekki tjón á þeim eigum kaupanda, sem eru í hans vörslu, svo sem handritum, skissum, teikningum, filmum, prentplötum, stafrænum gögnum o.þ.h. ef félagið er ekki að lögum ábyrgt fyrir tjóninu enda fái félagið það ekki bætt úr vátryggingu sinni. Fullunnin verk sem liggja hjá félaginu og ekki hafa verið sótt skv. samningi, eru á ábyrgð kaupanda og leysa verkkaupa ekki undan því að greiða verkið að fullu á meðan það er í vörslu félagsins.
9.4 Ekki skal koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félaginu fyrr en frá uppkvaðningu dóms.
10.1 Ef gert er ráð fyrir í skilmálum þessum að annar hvor aðili skuli senda gagnaðila tilkynningu, hverju nafni sem hún nefnist, þá skal hún send af stað með sannanlegum hætti til þess heimilisfangs sem aðilar hafa gefið upp eða lögheimilis þeirra, eins og það er skráð þegar tilkynning er send af stað. Sé þess gætt skal tilkynningin hafa þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda.
11.1 Undir öllum kringumstæðum skal félagið vera laust undan ábyrgð nema mál sé höfðað innan 1 árs frá þeim tíma er vara er afhent eða félaginu bar að afhenda hana.
12.1 Hvers kyns deilumál sem upp koma á milli aðila og sem ekki tekst að leysa með samningum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
13.1 Þessir viðmiðunarskilmálar voru samþykktir af stjórn félagsins í apríl 2009 og taka gildi frá og með 16. apríl 2009. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta þessum skilmálum hvenær sem er.