Til baka

Hugmyndaríkir leikskólakrakkar endurnýta efnivið frá Odda

Við erum Oddi. Við framleiðum fínerí. Það hefur meðal annars í för með sér að talsvert magn hráefnis fellur til við starfsemi okkar í formi afganga, afskurðar og innstillinga. Oddi flokkar allt tilfallandi efni til endurvinnslu, enda umhverfisvottað fyrirtæki. En okkur þykir samt alltaf skemmtilegast þegar hugvitið leiðir af sér snjalla endurnýtingu á efnivið, sem annars væri fargað.

Á efstu myndinni sjáið þið þannig hvernig afgangsefni hjá okkur í Odda er notað í sniðuga hluti. Þúsundir af svona skífum falla til hjá okkur árlega. Hin framtakssama Oddný Jónsdóttir hjá leikskólanum Garðaborg náði sér í dágóðan slatta. Krakkarnir hamast síðan við að nota dýrðina í girnilega ostabakka, pizzur og tertur.

Á neðri myndunum þremur má síðan sjá hluta af verkefninu „Úti að leika“, sem leikskólinn Laki / Hlíð vann í samstarfi við Barnamenningarhátíð 2016. Hin útsjónarsama Linda Ósk Sigurðardóttir hjá leikskólanum leit í heimsókn til okkar í plastframleiðslu Odda og fékk fjölbreytta afganga fyrir krakkana til að föndra úr. Verkefnið vakti stormandi lukku hjá jafnt krökkum sem starfsfólki.

Við hjá Odda höfum áratugum saman gefið leikskólum afgangspappír og karton í föndur og höfum núna bætt við okkur ýmsu efni úr bylgjupappír, plasti og ónýtum vörubrettum, sem fólk getur fengið gefins og endurnýtt. Heyrðu í okkur hljóðið í 515 5000 eða oddi@oddi.is, ef að þú heldur að þú gætir notað efnivið úr afgöngum sem falla til við framleiðslu okkar. Við eigum svo sannarlega alltaf eitthvað til.